Unimog er splunkuný hljómsveit skipuð þeim Þorsteini Einarssyni (Steina) og Guðmundi Kristni Jónssyni (Kidda) sem oftast eru kenndir við Hjálma.
Þeir Steini og Kiddi hafa verið iðnir við kolann undanfarna mánuði en þeir hafa verið á faraldsfæti með Ásgeiri Trausta Einarssyni, yngri bróður Steina og nánum samstarfsmanni Kidda. Í haust fögnuðu þeir félagar jafnframt 10 ára afmæli Hjálma með stórum tónleikum í Eldborg.
Á ferðum sínum um ókunn lönd hófu þeir félagar að dunda sér við að gera nýja tónlist til að drepa tímann og göfga andann og þegar tími hefur gefist hér heima hafa upptökur farið fram í Hljóðrita í Hafnarfirði með dyggri aðstoð góðra vina, svo sem Sigurðar Guðmundssonar, Ásgeirs Trausta og trommaranna Helga Svavars Helgasonar, Kristins Agnarssonar og Nils Törnqvist.
Smám saman hefur orðið til efni í heila plötu og hér er hún.